Honda CR-V 2013



Honda CR-V var hlutskarpastur í flokki jeppa og jepplinga í vali á bíl ársins 2014 og hlaut 682 stig. Dómnefnd hreifst af samspili verðs, búnaðar, rýmis og aksturseiginleika. Honda CR-V hefur verið í framleiðslu síðan árið 1995 og er núna á sinni fjórðu kynslóð. CR-V, sem hefur notið mikilla vinsælda meðal eldri borgara í gegnum tíðina, hefur ávallt verið öruggur kostur fyrir fólk sem leitar sér að góðum jeppling. Það sést í áreiðanleikakönnunum, en skv. breska bílablaðinu Auto Express skorar CR-V rúm 88% í 30.000 manna úrtaki. Einnig kemur fram á heimasíðu Honda á Íslandi að Honda hafi verið valinn áreiðanlegasti bílaframleiðandinn 8 ár í röð skv. What Car og Warranty Direct. Bíllinn er straumlínulagaðri en áður og lítur betur út fyrir vikið ásamt því að minnka eldsneytiseyðsluna. Útsýni úr gluggum er hið ágætasta og ekki skemmir hið flennistóra glerþak sem reynsluakstursbíllinn var útbúinn.

Rými

Honda CR-V er talsvert rúmbetri en hinir úrslitabílarnir í sama flokki, Toyota Rav4 og Ford Kuga. Farþegar sitja hátt og og hafa gott útsýni yfir veginn. Sætin eru rúmgóð og þægileg komast þrír fullvaxnir auðveldlega í aftursætin. Gírkassinn situr lágt í bílnum og því er gólfið undir miðjusætinu svo gott sem flatt, sem gerir farþega miðjusætis kleift að geyma fæturna á sínum stað. Afturhurðir opnast næstum því 90 gráður og er aðgengi því gott. Skottið rúmar 589 lítra með aftursætin í uppréttri stöðu og allt að 1.669 lítra með þau niðurfelld og er því eitt það stærsta í flokki bíla af þessari stærð. Því er nóg pláss fyrir hundinn og allan farangur fjölskyldunnar. Til gamans má geta að sigurvegari flokksins í fyrra, Hyundai Santa Fe, tekur 585 lítra í skottið, en er talsvert dýrari - En nánar um það síðar.

Öryggi

Honda CR-V skoraði 5 stjörnur í árekstrarprófum EuroNCAP og er í raun engin furða. Fjöldinn allur af loftpúðum er að finna í bílnum ásamt rafeindabúnað sem á að koma í veg fyrir slys. Skriðvörn, ABS-hemlar, rafstýrð hemlunarafls dreifing (dreifir álagi á hvern bremsudisk fyrir sig) ásamt stöðugleikakerfi fyrir tengivagna eru staðalbúnaður. Aukalega er hægt að fá radarstýrðan árekstrarvara og akreina aðstoð sem lætur vita ef bíllinn slysast yfir aðra akrein í gáleysi. Einnig er hægt að fá aukalega bakkskynjara og –myndavél.

Innrétting og búnaður

Þótt efnisvalið í innréttingu CR-V sé ekki hið allra besta – þ.e. nokkuð um ódýr og hörð plastefni –er ánægjulegt að sitja í honum. Þrír glasahaldarar eru milli framsætanna, hanskahólf er stórt og hurðavasar eru nægjanlega stórir fyrir meðalstóra drykkjarflösku. Allar útfærslur CRV koma með margmiðlunarskjá í lit í mælaborði, en stýrikerfið þótti undirrituðum ekki nægilega skilvirkt. Ennfremur tókst ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að tengja símann við bílinn með Bluetooth. Þar sem greinarhöfundi á þrítugsaldri þótti kerfið heldur flókið í notkun má Guð vita hvernig minna-en-meðal-tæknivæddum eldri borgurum líst á kerfið. Tekið skal fram að reynsluakstursbíllinn var af svokallaðri Executive gerð, þ.e. dýrustu gerð, og var því megnið af búnaði sem honum fylgdi aukabúnaður fyrir grunngerðir. Hlutir á borð við rafstýrð, hituð leðursæti, handfrjálst Bluetooth kerfi fyrir síma (sem virkaði ekki sem skildi), rafstýrður afturhleri, áðurnefnt glerþak, fjarlægðarskynjarar og bakkmyndavél eru allr aukabúnaður fyrir grunngerðina, Comfort, og því skal taka mið af því þegar verð bílsins er metið. Að svo sögðu kemur grunngerðin með tvískipta tölvustýrða miðstöð, aux- og usb tengi, cruise control, regnskynjara, rafstýrða hliðarspegla og 12v tengi milli framsæta og í farangursrými – en það verður að teljast nokkuð rausnarlegur búnaður fyrir lágt grunnverð.

Í akstri

Honda CR-V er þægilegur í akstri. Stýrið er létt og auðvelt að þræða bílinn um götur borgarinnar. Fjöðrun er mjúk og fyrirgefanleg og bíllinn svífur yfir hraðahindranir. Auk þess er bíllinn vel hljóðeinangraður og lítil þörf á að hækka róminn til að halda samræðum við farþega. Þó þótti bíllinn heldur vélarvana og sjálfskiptingin fremur sein undir álagi. Þegar komið var upp á Kvartmílubraut í keilusvig þótti CR-V-inn hegða sér eins og bátur í samanburði við hina keppinautana, en skriðvörnin skilaði sínu og skapaðist því aldrei hætta. Til að draga ályktun um aksturseiginleika bílsins má segja að hann standi sig vel við „venjulegar“ aðstæður en heldur hægt og klunnalega við krefjandi aðstæður. Hvað utanvegagetu varðar, þá er bílinn útbúinn fjórhjóladrifi og veghæðin er 165mm. Malarvegaakstur er hinn ágætasti þökk sé góðri fjöðrun og einangrun og ætti því ekki að eiga í nokkrum vandræðum með létta vegleysuþörf og snjóakstur hins meðal Íslendings.

Vélar og eldsneytiseyðsla

Val er á milli tveggja véla – 2.0i VTEC bensínvél og 2.2i DTEC dísilvél. Bensínvélin skilar 150 hestöflun og er losun kolefnis ekki nema frá 175 gr/100km á meðan dísilvélin skilar 155 hestöflum og losar aðeins frá 149 gr/100km sé beinskipting valin. Sú tala hækkar þó upp í 174 gr/100km sé sjálfskiptingin valin og er, samt sem áður, ekki há. Meðaleyðsla bensínbílsins er frá 7.4 l/100km skv. tölum frá framleiðanda (beinskiptur). Reynsluakstursbíllinn var með dísilvélina ásamt sjálfskiptingu og á skv. opinberum tölum að eyða að meðaltali aðeins 6.6 l/100km, þótt rauneyðslan hafi verið rétt tæpir 7.5 lítrar á hundraðið í reynsluakstri (ath. Akstur á kvartmílubrautinni ekki tekinn með!).

Verð

Eins og áður segir sigurvegari ársins í ár talsvert ódýari en sigurvegari síðasta árs – Hyundai Santa Fe. Grunnverð á Honda CR-V Comfort, með beinskiptingu og bensínvél er aðeins 5.690.000 kr. Fullbúinn bíll í Elegance útfærslu, eins og reynsluekið var, kostar hins vegar 7.690.000 kr. með sjálfskiptingu og dísilvél. Því til samanburðar er grunnverð á Hyundai Santa Fe 7.450.000 (2.2 dísil, sjálfskiptur), en á dýrustu útfærslu (Preminum, einnig 2.2 dísil, sjálfskiptur) heilar 8.750.000. Því má segja að hægt sé að gera kjarakaup á jepplingi ársins 2014.

(Öll verð miðast við verðlista Honda á Íslandi, maí  2013. Heimild: http://www.honda.is)

 

Kostir

Rými

Fágun

 

Gallar

Kraftleysi

Aksturseiginleikar við harðan akstur

Afþreyingarkerfi