Skoda Kodiaq

skoda

Nú þegar Skoda Kodiaq er að koma til landsins má telja með nokkurri vissu að verði sá bíll verði geysivinsæll. Í lok síðasta árs fór hins vegar fram kynningarakstur á bílnum á Mallorca á Spáni og var blaðamaður FÍB blaðsins með í för.


Við fyrstu kynni er augljóst að um Skoda er að ræða, jafnvel þótt þeir hafi aldrei áður framleitt jeppa. Hann er byggður á hinum margreynda og fjölhæfa MQB undirvagni Volkswagen samsteypunnar, líkt og flest allt sem rúllar af færiböndum grúppunnar þessa dagana. Útlitið er vissulega umdeilanlegt og féll ekki sérstaklega í kramið hjá undirrituðum.

Líkt og með Superb þótti skotthlerinn óþarflega skáhallandi sem fórnar þannig plássi fyrir stærri bagga. Tvískipt framljósin þóttu ekki sérlega aðlaðandi og línurnar og smáatriðn helst til flókin. Jafnvel þótt Peter Olah, einn af hönnuðum Kodiaq, vildi meina að hönnunin væri stílhrein og einföld var undirritaður ekki sannfærður - en lesendur og hugsanlegir kaupendur verða víst að eiga lokaorðið um það. Bíllinn er stærri en Octavia á alla kanta en, þótt ótrúlegt megi virðast, styttri en flaggskipið Superb. Þá er hægt er að fá Kodiaq í sjö sæta útfærslu, ólíkt Superb.

Kodiaq er talsvert mikilvægur bíll fyrir Skoda í þungri samkeppni á smájeppamarkaðnum og mun hann t.a.m. koma til með að vera seldur í Kína. Kína er stærsti staki markaður Skoda í dag og hefur verið síðan 2010. Skoda bílar voru fyrst seldir í Kína 2007 og hafa síðan selt 2 milljónir bifreiða þar í landi.
Í akstri
Þótt ætla megi að Kodiaq sé vel sniðinn að íslensku landslagi reyndi ekki á torfæruhæfileikana á silkimjúku malbiki Mallorca. Í raun fór reynsluaksturinn fram að miklu leyti við þær aðstæður sem Kodiaq-inn verður hvað algengastur; í innanbæjartraffík og úti á þjóðvegum.


Bíllinn er mjög áþekkur öðrum Skoda og Volkswagen bílum í akstri, enda deila þeir býsna mörgum hlutum í drifbúnaði, yfirbyggingu og innréttingu. Stýri lék létt í höndum ökumanns, vind- og dekkjagnýr var í lágmarki og veltingur í beygjum óverulegur á skynsömum hraða. Engin blöð eru brotin þegar kemur að fjöðrunarbúnaði; MacPherson fjöðrun að framan og fjölarma að aftan. Þægilegur fremur en skemmtilegur akstursbíll þegar á heildina er litið.


Til prófunar voru tvær útfærslur sem seldar verða á Íslandi, báðar með 2.0 lítra TDI dísilvélar. Fyrri skilaði 150 hestöflum og 340 Nm af togi í gegnum sex gíra beinskiptingu og sá seinni 190 hestöflum og 400 Nm í gegnum sjö þrepa DSG tví-kúplinga-sjálfskiptingu. Hægt er að fá 150 hestafla vélina með DSG kassanum, en hafandi prófað þá tvennu í minni, léttari systurbílnum Volkswagen Tiguan þótti aflið nokkuð magurt þegar kom að framúrakstri á þjóðvegahraða.

Auk þess að beinskipti gírkassinn er léttari í vigt er auðveldara að stýra vinnslunni hafi maður fullt vald á kúplingsfetli og gírstönginni. Upptakið úr kyrrstöðu er hins vegar vel viðunandi, enda togið talsvert frá lágum snúningi. Aflið var hins vegar feikna fínt í kraftmeiri bílnum og smellpassar DSG gírkassinn við karakter vélarinnar. Beinskiptingin var létt, þægileg og nokkuð viðnámslítil, en þó ferskur blær inn í heim sífellt fjölgandi sjálfskiptinga og deyjandi beinskiptinga.

DSG gírkassinn slær hins vegar enn og aftur í gegn og má vart taka eftir skiptingum. Einn smávægilegur hnökri uppgötvaðist þegar tekin var vitlaus beygja inn á lokaðan, aflíðandi sveitaveg. Þegar skipt var í bakkgír í brekku rann bíllinn óþægilega langt áfram áður en tannhjólin bitu saman. Litlu mátti muna að nefið rækist í grindverk, en slapp þó naumlega.


Skv. verðlista Skoda á Íslandi þegar greinin er skrifuð byrjar verðið á 150 hestafla bílnum í 5.460.000 kr og 190 hestafla bílnum í 6.950.000 kr. Einnig verður hægt að fá bílinn með 1.4 TSI bensínvél á Íslandi, en hún var því miður ekki tekin til kostanna að þessu sinni. Til að halda kostnaði niðri er drifbúnaðurinn ekki ýkja flókinn. Miðlægt mismunadrifið er með vökvakúplingu sem dreifir afli milli fram- og afturhjólanna þar sem við taka opin drif hvort á sínum endanum.

Rafstýrður skriðvarnar- og hemlunarbúnaðurinn læsir síðan einstökum hjólum eftir því sem þörfin krefur. Engin vægisdreifing (e. Torque vectoring) eða lágt drif eru til staðar, enda dýr búnaður og ólíklegt að margir eigendur aki við svo krefjandi aðstæður að hann vanti.


Fjórhjóladrifið er til staðar þegar á reynir og fyrrnefndar rafstýrðar driflæsingar tryggja að gamanið haldi áfram þótt ekki öll dekkin hafi grip. Veghæðin er gefin upp 188 mm og er viðunandi, en ekki framúrskarandi í þessum stærðarflokki.
Innrétting og tækni


Innra rýmið er rúmgott og útsýni úr bílnum er ágætt. Með aukinni hjálp lagningarmyndavéla og sjálfvirkrar bílastæðaaðstoðar er því leikur einn að leggja bílnum í þröng stæði. Fyrstu fimm sætin eru rúmgóð fyrir fullvaxna einstaklinga en sætin tvö í öftustu sætaröðinni eru merkilega bærileg fyrir tvo fullvaxna í viðbót - þó ekki nema í stuttan tíma. Fyrir börn eru þau hins vegar vegleg viðbót og fullkomlega ástættanleg. Farangursrými rúmar alls 765 lítra, en allt að 2000 lítra þegar sætaröðin í miðjunni er lögð niður. Öll áferð, efinisval og útlit er áþekkt öðrum Skoda bifreiðum og er umhverfið því kunnuglegt og ánægjulegt.

Stór snertiskjárinn í miðju bílsins er auðveldur í notkun og virkaði leiðsögukerfið vel um vegakerfi Mallorca. Columbus upplýsinga- og afþreyingakerfið tengist farsímum auðveldlega í gegnum Bluetooth eða SmartLink og inniheldur 64 gb gagnapláss. Hægt er að breyta bílnum í heitan Wi-Fi reit þannig að allir farþegar geti tengst og vafrað á netinu meðan á ferðalagi stendur.


Simply Clever
Einkunnarorð Skoda, Simply Clever, eru ekki valin af ástæðulausu, því aragrúa snjallra lausna er að finna í bílnum. Sem dæmi má nefna losanleg ljós í farangursrými sem má nota sem vasaljós, regnhlífar í framhurðum líkt og finna má í Rolls Royce, borð með glasahöldurum á sætisbökum framsæta og rúðusköfu í eldsneytisáfyllingarloki. Þá stíga fram gúmmílistar sem umlykja lóðréttan kant hurðanna þegar þær eru opnaðar og koma þannig í veg fyrir hvimleið og óþarflega dýr tjón ef maður nú óvart ,,hurðar” næsta bíl á bílastæðinu. Loks má draga fram eins konar flipa á höfuðpúðum aftursæta, ekki ósvipaða þeim er fyrirfinnast í sumum flugvélum, og er hægt að halla sér upp að þeim og fá sér smá kríu. Einfaldar, ódýrar lausnir sem erfitt er að láta sér detta í hug, en hálf ómissandi þegar maður hefur komist í kynni við þær.

Segja má að Skoda Kodiaq er velkomin viðbót í smájeppaflóruna og kemur hann fílefldur inn á markaðinn á einkar samkeppnishæfu verði.

 

Verð: Frá 5.460.000 (150 hö, bsk) og 6.950.000 (190 hö, DSG)
Afköst véla: 150 hestöfl, 340 Nm og 190 hestöfl, 400 Nm
Eldsneytisnotkun
(skv. framleiðanda):
5,4 l/100 km og 5,7 l/100 km
Losun CO2:
141 g/km (150 hö, bsk) og 150 g/km

Kostir: 

  • Nýting á plássi
  • Sparneytni
  • Gæðatilfinning
  • “Simply Clever”

Ókostir 

  • Flókin og misfögur hönnun ytra byrðis
  • Heldur lág veghæð
  • Afl afkastaminni vélar
    við hærri snúning