Benz ML 350 BlueTEC


Í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu þann 31. maí 2012 keppti Anna Kristín Guðnadóttir á þeim bíl sem hér er til umfjöllunar; Mercedes Benz ML 350. Rauneyðsla þessa 260 hestafla og rúmlega tveggja tonna þunga bíls hjá Önnu Kristínu á keppnisleiðinni Reykjavík-Akureyri reyndist einungis 7,35 l af dísilolíu á hundraðið sem hiklaust telst mjög gott. Sá sem þetta ritar tók við bílnum í reynsluakstur að keppni lokinni og og hlaut í kjölfarið 15 mínútna fjölmiðlafrægð fyrir að aka nokkuð greitt, en það er önnur saga sem ekki verður tíunduð hér.

En þessi nýi ML Benz er frábær bíll um flest. Hann er mjög aflmikill og hraðskreiður, liggur afskaplega vel á vegi og vélin togar mjög vel og það er eins og henni sé sama hvort hún sé bara að snúast hægagang. Ekkert lát er á vinnslunni og dísilvélin bregst eldsnöggt við þegar t.d. aka þarf fram úr flutningabíl af lengstu gerð og þegar það er búið dettur hún bara aftur niður í sinn hljóðláta hægagang, því raunar er hún bara í hægagangi í akstri á hinum lögbundna 90 km hámarkshraða. Þá sýnir snúningshraðamælirinn einungis um 1200 sn. á mínútu. Það er auðvitað stór hluti skýringarinnar á því hve þessi stóri þungi bíll getur verið sparneytinn.

Reynsluakstursbíllinn var af einni vönduðustu undirgerð ML Vélin í honum er V6 dísilvél tæplega þrír lítrar að rúmmáli. Hún er 258 hestöfl og ásamt 7 hraða sjálfskiptingunni skilar hún bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á 7,4 sekúndum. Miðað við þetta mikla afl getur manni vart ofboðið eyðslan sem í reynsluakstri hjá ADAC í Þýskalandi mældist 8,2 lítrar á hundraðið. Sá reynsluakstur stóð í rúma viku og var bílnum ekið í dreifbýli og þéttbýli og á lokuðum akstursbrautum og loks á fullri ferð á hraðbrautum. Heldur er ekki hægt að láta sér blöskra CO2 útblásturinn. Hann mældist að meðaltali 179 grömm á kílómetrann.

Allt sýnir þetta að hér er á ferð mjög vandaður bíll og tæknilega háþróaður og það kostar sitt. Allar innréttingar og frágangur er með því besta sem gerist og þessi nýja kynslóð ML hefur verið endurhönnuð þannig að bíllinn er sérlega rúmgóður þótt ekki sé hann sérstaklega stór um sig hið ytra, eða svipaður og helstu keppinautarnir sem eru Audi Q7, BMW X5, Range Rover Sport, Porsche Cayenne og VW Touareg. Verð ML 350 Benzans byrjar í tæpum 12 milljónum króna en reynsluakstursbíllinn var nokkru dýrari en það enda með dýrri leðurinnréttingu. En til samanburðar þá kostar Range Roverinn frá 14,5 millj. kr. Porsche Cayenne frá tæpum 15 milljónum og Audi Q7 frá 13,25 millj. kr. Í þessum samanburði er verð Benzans því ekki svo slæmt.

ML-350 er með pottþéttustu bílum í akstri. Jafnvægið í honum er þannig að hann væri með bestu akstursbílum þótt enginn væri í honum hjálpar- og öryggisbúnaðurinn eins og ESC stöðugleikakerfi. Bæði það og annar virkur öryggisbúnaður sem ýmist er staðal- eða aukabúnaður, bæta hins vegar verulega við öryggið með því að grípa inn í mistök ökumanns. Reynsluakstursbíllinn var ríkulega búinn slíkum búnaði og var einfaldlega frábær í akstri fyrir vikið og auðvelt að missa sig uppfyrir íslenska hámarkshraðamarkið á vegum úti.

Undir stýri fer vel um ökumann og hönnuðir bílsins hafa lagt sig sérstaklega fram um að hafa öll stjórntæki og mæla sem „ergónómískast“ staðsett þannig að þegar einhverjum sillingum á hitakerfi, hljómtækjum eða skriðstilli þarf að breyta, valdi það sem minnstri truflun gagnvart akstrinum. Í stýri er bíllinn afar rásfastur og svarar minnstu hreyfingu stýrisins undireins. Þá liggur bílinn á veginum nánast eins og hann fylgi járnbrautarspori. Fjórhjóladrifið er sítengt eins og í Subaru og vitanlega gerir það sitt fyrir stöðugleikann. En það gerir hugvitssamlegt fjöðrunarkerfið líka sem stillir sig eftir bæði hraða og aðstæðum. Hið sama gerir svo ESC stöðugleikakerfið einnig þannig að veggripið er afar gott og traust.

Þótt þessi mikli og góði lúxusbíll sé hreint ekki sá dýrasti af helstu samkeppnisbílum í þessum verð- og gæðaflokki þá er hann þó það dýr að það er ekki á allra færi að eignast hann. Verðið er eiginlega það eina sem manni dettur í hug að finna að við þennan bíl því búast má við að það standi talsvert í launþegum með meðal- og efri meðaltekjur að setja 12 milljónir í bílakaup. Að eiga svo dýran bíl og reka að öllu meðtöldu (fjármagnskostnaði og almennum reksturkostnaði við sjálfan bílinn m.v. 15 þ. km ársakstur og verðfall) kostar varla minna en 175 þúsund kall á mánuði, sé gengið út frá því að eiga bílinn í 4 ár.

 

Í HNOTSKURN

Mercedes Benz ML 350 Blue TEC

Lengd/Breidd/Hæð í mm: 4804/1926/1788

Eigin þyngd/hlassþyngd: 2220/730 kg.

Vél: 6 str. dísil

Slagrými:2987 rúmsm

Afl: 258 hö

Vinnsla: 620 Nm/1600 sn. mín.

Gírkassi: 7 hraða sjálfskipting

Hröðun 0-100: 7,4 sek.

Eldsn.eyðsla í bl. akstri: 8,2 l pr 100 km. (ADAC mæling).

CO2 útblástur: 179 g pr. km

Farangursrými: 470/945 l

Verð: Frá tæpl. 12 millj. kr.

 

+ Afbragðs aksturseiginleikar

- Verðið ekki fyrir hvern sem er