Nissan Qashqai 2014



Hinn nýi Nissan Qashqai var heimsfrumsýndur undir lok árs 2013 og kynntur hér á Íslandi um miðjan apríl síðastliðinn. Bíllinn er allur stærri í sniðum en áður, en honum er ætlað að brúa bilið milli gamla bílsins og hins fráfarandi X-Trail. Ekki stendur til að bjóða upp á 7 sæta útfærslu líkt og áður (Qashqai +2), en sá möguleiki verður einungis fáanlegur í X-Trail og Pathfinder héðan í frá.

Stærri, léttari og sportlegri

Eins og áður segir hefur nýi Qashqai-inn stækkað nokkuð umfram gamla bílinn. Lengdin hefur aukist um 5 cm og breiddin um 2 cm. Þó hefur hann lést um heil 40 kg í ferlinu, en er samt sem áður 1,5 cm lægri en áður. En ætli það sé ekki hluti af sportleikanum sem er svo móðins nú til dags? Útlitið er mjög afgerandi og fylgir straumum nútímans. Línur eru skarpar og taka mörgum stefnubreytingum og eru (að mati undirritaðs) of margar, úti um allt og skapa hálfgert kraðak. Etir að hafa skoðað bílinn í bak og fyrir, í hinum og þessum litum, reyndist megnið af þessum (óþarfa) línum drukkna í svörtum lit. Fyrir vikið virtist hönnunin meira flæðandi og bíllinn talsvert myndarlegri í svörtu. Afturhlerinn er skáhallandi í þágu „hönnunar“ og tapast því talsvert farangursrými samanborið við klassískan, lóðréttan Volvo-hlera. Í hinu staðlaða „trommuprófi“  stóð nýi Qashqai-inn sig því ekki nægilega vel þar sem ekki reyndist mögulegt að koma bassatrommutösku inn í skottið (og loka því) án þess að fella niður aftursætin. Hér verður hver og einn að gera upp við sig hvort útlit eða notagildi sé mikilvægara.  

Innrarými

Það er hrein gæðatilfinning sem tekur á móti manni er sest er inn í bílinn. Efnisval innan handseilingar er til fyrirmyndar og lítið er um hörð, ódýr plastefni.  Mælaborð og snertiskjárinn milli framsætanna ljóma í svölum, bláum lit og skapa þægilegt andrúmsloft. Yfirbragð innrarýmisins er stílhreint og heldur íhaldssamara en að utan.

Þegar fyrst var sest upp í bílinn og takkarnir fyrir rafmagnsstýrða ökumannsætið mundaðir hefði mátt halda að mun smærri aðili hafði ekið bílnum. Leitt var að komast að því að sætið fór einfaldlega ekki nógu langt niður, og var höfuð hins 183 cm höfundar tæpum þumlungi frá þakinu í lægstu stöðu. Líklega má skrifa það á hið ómissandi glerþak, sem takmarkar höfuðrými lítillega. Að öðru leyti var akstursstaðan hin ágætasta. Tveir glasahaldarar eru milli framsætanna ásamt stórum hurðarvasa sem auðveldlega má koma fyrir kaffibrúsa eða álíka íláti. Nægt pláss er fyrir farþega í aftursætum, þó þolinmæði farþega miðsætis gæti verið takmörkuð með heldur minna höfuðrými en í öðrum sætum. Líkt og komið var inn á hér að framan var farangursrýmið takmarkað vegna skáhallandi afturhlerans, en plássið jókst þó feiknarmikið þegar sætin voru felld niður, en þau falla niður alveg flöt og reyndist því því leikur einn að hlaða inn í bílinn.

Búnaður og græjur

Reynsluakstursbíllinn var í Tekna útfærslu, þ.e. af dýrustu gerð og drekkhlaðinn búnaði. Ætla mætti að þetta magn af búnaði ætti heima margfalt dýrari bílum, en hér er um að ræða alls kyns skynjara sem m.a. nema ef bíllinn skagar af akreininni sinni (e. Lane Departure Warning), vara ökumann við ef hann nálgast næsta bíl að framan of hratt og styður við hemlana sé þess þörf (e. Front Collision Avoidance) og nálægðarskynjara að framan og aftan sem auðvelda lagningu bílsins. Myndavélar eru í fram- og afturstuðurum og undir hliðarspeglum bílsins sem saman mynda svokallaða 360° sjón og gera það verkum að aldrei hefur verið auðveldara að leggja bíl. Sem dæmi um annan tæknibúnað má nefna lyklalaust aðgengi, leiðsögukerfi með Íslandskorti, Bluetooth tengingu, Aux og USB tengi, LED-aðalljós og rafdrifið ökumannssæti ásamt öðrum búnaði. Síðast þegar undirritaður komst í tæri við slíkt magn af tæknibúnaði var í þýskri eðalkerru sem kostaði það er samsvarar rúmlega þremur Qashqai-um.

Í akstri

Bíllinn er vel einangraður og hljóðlátur í akstri. Vélar- og vindhljóð eru í lágmarki sem gerir aksturinn afslappaðan og þægilegan. Afl er ekki ýkja mikið; aukið tog vélarinnar skilar sér reyndar í sæmilegu upptaki en þegar hestöflin grípa inn í óskaði maður þess að þau væru nokkuð fleiri. Í fyrstu virtist fjöðrunin hitta beint í mark; stórar ójöfnur á borð við hraðahindranir voru ljúflega straujaðar niður og veltingi vel haldið í skefjum í beygjum. Það kom þó á óvart hve óstyrkur og ör bíllinn varð við meiri ferð á minni ójöfnum, t.a.m. á Kringlumýrarbrautinni í Reykjavík. Líklega má skella skuldinni á nýja afturfjöðrun (e. Torsion Bar Suspension), sem er hvorki eins fáguð né áhrifarík eins og Multi Link fjöðrun fyrirrennarans og er ástæðan einfaldlega þyngdar- og kostaðarsparnaður. Aðra sögu var hins vegar að segja í malarakstri; bíllinn var rásfastur, fjórhjóladrifið greip vel í mölina og vakti öryggistilfinningu og sjálfstraust ökumanns til að reyna sífellt meira á þolmörk bílsins.

Að lokum voru margmiðlunartæki bílsins skilvirk og auðveld í notkun, bæði í mælaborði og milli framsæta. Aragrúi valmöguleika og stillingar voru í boði og reyndist leikur einn að skilja allar skipanir og alla virkni. Passa verður þó upp á að halda augunum frá öllum græjunum og einbeita sér að akstrinum þar sem auðvelt var að týnast í hafsjó tækninnar og prófa alla valmöguleika, kort, hljóðkerfi og myndavélar!

Að lokum

Þessi önnur kynslóð Nissan Qashqai er svo sannarlega vel heppnuð og mun að öllum líkindum rokseljast á Íslandi sem og víðar. Þökk sé hagkvæmni, aksturseiginleikum og ótrúlegu magni staðalbúnaðar má með sanni segja að Nissan Qashqai sé skynsöm fjárfesting og peninganna virði.

Róbert Már Runólfsson

 

Kostir:

  • Aksturseiginleikar
  • Tæknibúnaður
  • Verð

Gallar:

  • Fjöðrun
  • Farangursrými
  • Aflleysi

Helstu upplýsingar:

Verð: 4.590.000 kr – 5.790.000 kr

Afl: 130 hestöfl

Tog: 320 nm

Eldsneytisnotkun í blönduðum akstri [l/100 km]: 4,6 – 4,9

Losun CO2 [g/km]: 119 - 129