Fréttir

Tesla Model Y kom sá og sigraði - kínverskir nýliðar með sterka innkomu

Euro NCAP birti nýjar öryggisúttektir á nokkrum bílum í vikunni. Tesla Model Y náði mjög góðum árangri og skýst á toppinn yfir nýlega birta fimm stjörnu bíla. Nýr rafknúinn Genesis GV60 (lúxusmerki Hyundai) heldur áfram 5 stjörnu velgengni GV70 og GV80 sem voru prófaðar á síðasta ári. Euro NCAP prófaði einnig tvo nýliða frá kínverska framleiðandanum Great Wall Motor Company. Bæði ORA Funky Cat og WEY Coffee 01 náðu fimm stjörnum. Athygli vekur að nýr Kia Niro fékk aðeins fjórar stjörnur í staðalútgáfu en Niro með auka öryggispakka náði fimm stjörnum.

Bensínið dýrast á Íslandi

Samkvæmt samanburði á eldsneytisverði í 34 Evrópulöndum á vefsíðunni www.tolls.eu þá njótum við Íslendingar þess vafasama heiðurs að borga hæsta bensínverðið í Evrópu. Samanburðurinn nær yfir meðalverð á bensín- og dísillítra í löndunum þann 29. ágúst 2022. Verðin eru uppreiknuð með skráðu viðmiðunargengi Evru hjá Seðlabanka Íslands.

Kílómetragjald er skynsamlegasta leiðin

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir kílómetragjald sanngjörnustu og skynsamlegustu leiðina til að innheimta gjald af bílum og umferð til lengdar. Hann bendir á að eigendum farartækja fjölgi sem ekki greiða fyrir notkun vegakerfisins með sama hætti og á við um bensín- og dísilbíla. Þetta kemur fram í innsendri grein Runólfs Ólfssonar í Fréttablaðinu í dag sem lesa má í heild sinni hér fyrir neðan.

Olíufélögin skulda lækkun á eldsneytisverði

FÍB hefur ítrekað gagnrýnt óeðlilega hátt bensín- og dísilolíuverð hér á landi. Hráolíuverð á mörkuðum hefur lækkað um næstum 30% á tveimur mánuðum. Á sama tíma hefur bensínverð á Íslandi farið niður um 4,2% og dísilverð um 4,7%. Til samanburðar hefur bensín í Danmörku lækkað um 18,4% og dísilolía um 16,8%. Bensínverð á Íslandi og í Danmörku var svipað í báðum löndum snemma í júní. Núna er verðmunurinn á milli landanna yfir 55 krónur á hvern lítra af bensíni.

Netkönnun á stöðu hleðslustöðva fyrir rafbíla og notkun þeirra

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur falið Íslenskri Nýorku að gera netkönnun á stöðu hleðslustöðva fyrir rafbíla og notkun þeirra á meðal rafbílaeigenda í sumar. Verkefnið er unnið fyrir starfshóp ráðuneyta um orkuskipti í samstarfi við Orkusetur og munu niðurstöður verða birtar í nóvember.

Nýskráningar fólksbifreiða komnar yfir 11 þúsund

Það sem af er árinu eru nýskráningar fólksbifreiða orðnar 11.065. Á sama tíma í fyrra voru þær 7.986 og nemur aukningin því um 38,6%. Nýskráningar til bílaleiga eru 54,6% og til almennra notkunar 44,6% af því er fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandinu.

,,Þetta sýnir fyrst og fremst fákeppnina á markaðnum“

Heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu hefur lækkað um rúmlega 20% frá því í byrjun júní. Á sama tíma hefur bensínverð hér innanlands lækkað lítið. Í umfjöllun í Viðskiptablaðinu segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, að fylgni bensínsverðs við heimsmarkaðsverð ekki í samræmi við það sem sést í nágrannalöndunum. Bensínítrinn fór hæst upp í 350 krónur í júní og hefur nú lækkað niður í kringum 336 krónur á lítrann.

Annar umferðarmesti júlí frá því mælingar hófust

Umferðin í júlí um lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringveginum reyndist um prósenti minni en í sama mánuði í fyrra. Samt er þetta annar umferðarmesti júlí frá því mælingar af þessu tagi hófust. Reikna má með að umferðin í ár verði ríflega 1,5 prósenti meiri en árið 2021 að því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.

55% landsmanna á móti fyrirhuguðum gjaldtökum í jarðgöngum

Meirihluti landsmanna er á móti fyrirhugaðri gjaldtöku í öllum jarðgöngum á Íslandi samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Samkvæmt könnun Maskínu eru 55 prósent landsmanna andvíg gjaldtöku, en ríflega 20 prósent hlynnt henni. Svipað margir segjast í meðalagi hlynntir eða andvígir. Könnunin fór fram dagana 20. til 25. júlí og voru svarendur 1.069 talsins.

Minni eftirspurn í Evrópu og N-Ameríku

Bílaframleiðendur eru farnir að merkja minni eftirspurn í Evrópu og Norður-Ameríku. Sérfræðingar segja vaxandi vísbendingu um að neytendur séu hikandi í kaupum vegna hækkandi verðs og aukinnar verðbólgu.