BMW i3 rafbíll

    

 

 

 

 

 

 

 

FÍB Blaðið bílaprófun 1.tbl 2017
Rafbíll með eða án ljósavélar

BMW i3 er hreinræktaður rafbíll. Það þýðir að hann er knúinn milliliðalaust af rafmagni. Hann fæst með eða án innbyggðrar bensínrafstöðvar sem fer sjálfvirkt í gang þegar líþíumrafhlöðurnar eru að tæmast. Þegar það gerist fer straumurinn frá rafstöðinni rakleitt til rafmótorsins sem snýr afturhjólunum. Bensínvélin sem er tveggja strokka og ættuð frá BMW mótorhjóli, skilar engum af þeim snúningshestöflum sem hún framleiðir til drifhjólanna í gegn um gírkassa, enda er enginn slíkur í þessum bíl fremur en flestum öðrum rafbílum.

   BMW i3 er yfirleitt talinn til smábíla þótt hann sé nær því að vera fimm manna millistærðarbíll. Í honum er ágætis pláss, sérstaklega í framsætum og aðgengi að aftursætinu er greitt og auðvelt, ekki síst vegna þess að afturdyrnar eru svokallaðar sjálfsmorðsdyr (suicide door) sem opnast að framanverðu og enginn B-stólpi hindrar aðgengið. 

Tímamótabíll

i3 er að mörgu leyti tímamótabíll. Hann er sérstakur í hönnun, útliti og efnisnotkun og það langdrægur að á honum má komast hvert sem er, norður – suður – austur - vestur. Á rafmagninu einu má alveg reikna með að komast amk. 200 kílómetra og ef bensínrafstöð er til staðar kemst hann 130 km til viðbótar, það er að segja ef níu lítra bensíntankurinn var fullur í upphafi ferðar. Bíllinn er mjög léttur þrátt fyrir rafhlöðusamstæðuna, sem byggð er ofan í tvöfalt gólfið. Það er fyrst og fremst vegna þess að hann er byggður úr áli og koltrefjaefnum og er þar með líka laus við það að ryðga og tærast. En byggingarefnið er því miður dýrt og BMW i3 kostar talsvert, en á móti kemur að hann er mjög líklegur til að geta enst vel og lengi.

  

 

 

 

 

 

 

 

BMW i3 er sérlega notalegur bíll í akstri. Hann er eldsnöggur í viðbragði enda 170 hestafla og sérlega hljóðlátur, nánast hljóðlaus í rólegri þéttbýlisumferðinni og aðeins lágur vegdynur heyrist úti á vegum. Við reynsluókum þessum tímamótabíl sl. haust í góðviðri og hlýindum. Þá tókum við honum með fullhlaðna rafgeyma og ókum honum hingað og þangað um höfuðborgarsvæðið einn vinnudag án þess að stinga honum í samband við rafmagn og án þess að bensínrafstöðin færi nokkru sinni í gang.

Þessvegna fengum við bílinn aftur lánaðan skömmu eftir áramótin í miðjum kuldakafla. Við tókum við honum með tæplega hálfhlöðnum rafgeymunum og ókum austur á Selfoss. Á Hellisheiðinni var þá 16 stiga frost og hvass mótvindur. Í slíkum kulda rýrna afköst rafgeymanna verulega og til að verða ekki krókloppinn inni í bílnum og til að ekki myndaðist héla á rúðum var miðstöðin látin ganga duglega. Allt þetta stuðlaði að því að hratt gekk á orkuforðann í geymunum.

Þá gerðist það allt í einu í Ölfusinu skammt frá Kögunarhóli að bensínrafstöðin í bílnum datt í gang - loksins. Það var ekki meira en svo að maður yrði þess var, svo hljóðlát var hún. En um leið og hún var komin í gang, þá sýndi skjárinn í mælaborðinu að bíllinn væri kominn í sparakstursham sem m.a. þýðir það að öll 170 hestöflin eru ekki lengur tiltæk heldur aðeins um helmingur þeirra. Það skipti hins vegar engu máli þarna á jöfnum 90 km þjóðvegarhraða þar sem 85 hestöfl nægja fyllilega og gott betur. En á Olísstöðinni að Arnbergi við Selfoss er hraðhleðslustöð og þar stungum við bílnum í samband í um hálftíma. Eftir það sýndi skjárinn í mælaborðinu að geymarnir væru hlaðnir að tæplega ¾. Það dugði til heimferðarinnar upp Kamba og yfir Hellisheiði. Heimferðin var bæði undan vindi að mestu auk þess sem af hábungu Hellisheiðarinnar hallar undan langleiðina til Reykjavíkur. Í talsverðu snatti milli hverfa og húsa á höfuðborgarsvæðinu kláraðist svo straumurinn sem hlóðst inn á Selfossi og aftur fór rafstöðin í bílnum í gang.

   Sá meginlærdómur sem af þessum reynsluakstri má draga er, að á þessum bíl er hreinlega ekki nokkur ástæða til að láta drægisóttann ná tökum á sér. BMW i3 kemst með mann þangað sem för er heitið.

Í akstri

BMW i3 reyndist sérlega notalegur í akstri og notkun. Rúmt er um ökumanninn og útsýni gott úr bílnum. Það er sérstaklega aðlaðandi hversu hljóðlátur hann er. Þá er hann sem fyrr segir mjög viðbragðssnöggur og það svo mjög að erfitt er að stilla sig um að sýna öðrum ökumönnum á aflmiklum bensín- og dísilbílum við hlið manns á rauðu ljósi hvers hann er megnugur  þegar hið græna kviknar. BMW i3 stingur flestalla af þar.

   Hægt er að velja um þrenns konar akstursstillingar. Sú stilling þar sem öll 168 bremsuhestöflin eru til ráðstöfunar nefnist Comfort og er hún eðlilega sú orkufrekasta. Sú næsta nefnist Eco Pro. Í henni er bíllinn heldur seinni í hundraðið auk þess sem hann er sagður hægja meir á sér þegar slakað er á inngjöfinni þótt við fyndum ekki sérstaklega fyrir því. Afhröðunin virtist svipuð í öllum akstursstillingunum þremur og er það öflug að í þéttbýlisumferðinni þarf nánast aldrei að snerta hemlafetilinn til að hægja á bílnum eða stöðva. Hin öfluga afhröðun þegar létt er á ,,bensínfætinum" hefur auðvitað þann tilgang að endurvinna hreyfiorku bílsins og skila henni sem rafmagni inn á geymana.

   Það er aðeins í Comfort-stillingunni sem öll 170 hestöflin eru til ráðstöfunar og hægt er að ná hámarkshraða bílsins. Orkusparnaðarstillingarnar tvær; Eco Pro og Eco Pro+ takmarka hann við mest 110 km á klst. En ef ökumaður stígur inngjöfina snöggt í botn, þá hrekkur bíllinn sjálfvirkt í Comfort-stillinguna aftur. Þriðja akstursstillingin, Eco Pro+, er sú sem er mest orkusparandi og takmarkar hámarkshraðann mest og fækkar mest hestöflunum sem til ráðstöfunar eru. Þessi stilling hentar mjög vel í þéttbýlisakstri, sérstaklega í þéttri umferð.

   Enda þótt i3 sé rafbíll og fyrst og fremst hannaður til notkunar í þéttbýli leynir það sé ekkert að þetta er BMW sem líka hentar til vega- og hraðbrautaaksturs og ræður vel við það á allan hátt. Stýrið er nákvæmt og rásfast og svarar vel og bíllinn þótt hábyggður sé, er eins og hugur manns í flestum akstri. En þar sem bæði rafmótorinn og bensínrafstöðin eru hvortveggja staðsett yfir afturöxlinum og bíllinn afturhjóladrifinn, þá fannst það í rokinu á Hellisheiðinni að framendinn var óstöðugri en hjá venjulegum bíl með vélina fram í og framhjóladrif. Eiginlega var hann svolítið keimlíkur gömlu VW bjöllunni þar. En það hefur þessi afturhjóladrifni bíll framyfir framhjóladrifnu bílana að hann leggur miklu betur á en þeir og hægt er að snúa við á götu án þess að snerta gangstéttarbrúnir og án þess að þurfa að bakka. Beygjuradíusinn er sérlega stuttur eða trúlega svipaður og á svörtu Lundúnaleigubílunum fornfrægu sem nánast ,,snúa á punktinum."

   Stjórntæki BMW i3 eru fyrir utan stýri, inngjöf og hemlafetil eru öll rafræn og flest tölvutengd. Ekkert eiginlegt mælaborð er fyrir framan ökumann heldur tveir tölvuskjár, annar beint framanvið ökumann og hinn, sem er snertiskjár, á miðju mælaborðinu. Á þeim birtast allar upplýsingar sem ökumaður þarfnast í akstrinum um hraða, rafmagns- og bensínstöðu og ætlað drægi, um staðsetningu orkustöðva, hitastig úti og inni og margt margt fleira. Sérstakt leitar- og flettihjól er milli framsætanna og með því getur ökumaður kallað fram það sem hann þarfnast, t.d. leiðsögukort, útvarpsstöð til að hlusta á eða bara stillt miðstöðina. Á stýrishjólinu eru svo takkar, m.a. til að hækka og lækka í útvarpinu og margt fleira, svo ökumaður sé ekki að fálma við snertiskjáinn í akstri.

Öryggi og ábyrgðir

Hvað öryggi varðar þá er BMW i3 með fjórar Euro NCAP-stjörnur. Það sem hindraði að hann næði fimmtu stjörnunni er, að enginn lóðréttur stólpi (B-stólpi) er milli botns og lofts milli hliðarhurðanna. Það er meginástæða þess mótstöðuafl bílsins gagnvart árekstrum frá hlið er minna en ella væri og það kostar þennan bíl fimmtu stjörnuna. Euro NCAP árekstrarprófaði bílinn árið 2013. Það leiddi í ljós mjög góða vernd fullorðinna (86%) og barna (81%) en vernd fólksins í bílnum reyndist heldur slakari í hliðarárekstrum eða 57%.

   Framleiðandi tekur ábyrgð á hugsanlegum göllum og bilunum í bílnum í þrjú ár óháð kílómetrastöðu. Auk þess er veitt sérstök átta ára og/eða 100 þúsund km  ábyrgð á rafhlöðusamstæðunni að því segir á heimasíðu innflytjandans BL. (Í Bretlandi nær þessi ábyrgð til 100 þúsund mílna eða 150 þ. km). 

 

Rafhlaða:  33 kWh

Hámarks afköst: 170 hö (125 kw)

Uppgefin drægni:  290 - 300 km

Raun drægni: 200 km

Hleðslutími:  3,5 - 12 klst.

Hraðhleðsla 80%: 39 mín.

Nánari upplýsingar á heimasíðu BL.